49. Andrésar Andarleikunum lokið

Það verður að segjast eins og er að þegar sá er þetta skrifar skráði börn SÓ á Andrés bjóst ég ekki við mikilli skráningu. Snjóleysi hefur verið algjört hér á Ólafsfirði í vetur og enginn skíðað hér í firðinum frá 20 janúar og toglyftan okkar í Tindaöxl var opin í 3 daga. Skráningin kom mér strax á óvart, 43 börn skráð, tvö helltust úr lestinni og ég var bara mjög stoltur af þessum fjölda miðað við aðstæður. Alpagreinar hafa getað æft á Siglufirði í vetur og komist nokkuð á skíði, en skíðagangan hefur verið á haustæfingum síðan í sumar má segja.

En hvað um það, alltaf gaman að fara á Andrés og ég afskaplega stoltur af SÓ hópnum. Fullt af foreldrum með á hátíðina og gist við fyrsta flokks aðstæður á Hótel Hálönd. Það verður að teljast með ólíkindum árangur okkar barna á leikunum. Þegar úrslit eru tekin saman þá er SÓ með börn sem skiluðu okkur 4 Andrésartitlum, 5 silfurverðlaunum og 9 bronsverðlaunum!!! Frábær árangur hjá okkar börnum og þetta er auðvitað fyrir utan alla RISA persónulegu sigrana sem eru jú líklega stærstu sigrarnir, miklu stærri en Andrésartitill. 

Mig langar til að þakka þjálfurum félagsins sérstaklega fyrir veturinn og frábær störf fyrir félagið. Foreldrum sem stóðu vaktina og héldu utan um hópinn okkar á Andrés og síðast en ekki síst, öllum börnunum sem kepptu fyrir félagið og stóðu sig frábærlega vel.

F.h. Skíðafélags Ólafsfjarðar
Kristján Hauksson, formaður