Fjórir Íslandsmeistaratitlar til SÓ á fyrsta keppnisdegi SMÍ

Matthías Kristinsson (fyrir miðju) Íslandsmeistari!
Matthías Kristinsson (fyrir miðju) Íslandsmeistari!

Fyrsta keppnisdegi á SMÍ er lokið en keppt var í svigi á Dalvík og skíðagöngu með frjálsri aðferð á Ólafsfirði.

Það voru sætir sigrar hjá okkar fólki úr SÓ í dag bæði í svigi og skíðagöngu. Matthías Kristinsson varð í dag Íslandsmeistari í svigi karla á Dalvík. En þess má geta að síðan Kristján Uni Óskarsson varð Íslandsmeistari í svigi 2005 hefur SÓ ekki átt Íslandsmeistara. Einnig má geta þess til gamans að nú eru liðin 20 ár síðan Kristinn Björnsson, faðir Matthíasar, varð síðast Íslandsmeistari. En Matthías átti flottar ferðir í sviginu og var fyrstur eftir fyrri ferðina. Hann átti svo flotta seinni ferð og var einnig með besta tímann af öllum í henni og sigraði því glæsilega! Matthías fagnaði þar með einnig sigri í flokki 16-17 ára og í FIS keppninni.

Í skíðagöngunni sigruðu Árni Helgason og Svava Rós Kristófersdóttir nokkuð óvænt í flokki 13-14 ára og Silja Rún Þorvaldsdóttir varð þriðja í sama flokki. Afmælisbarn dagsins, Elsa Guðrún Jónsdóttir varð svo þriðja í kvennaflokki sem gengu 5km.

Heldur betur flottur dagur fyrir SÓ!

Annars gekk mótahald vonum framar, vissulega var hvasst á köflum í skíðagöngunni en brautir harðar og fínar og úrkomulaust.

Öll úrslit mótsins má sjá á heimasíðum mótshaldara, www.skiol.is og www.skidalvik.is einnig eru öll úrslit í skíðagöngunni inn á www.timataka.net 

Á morgun hefst keppni í skíðagöngu með hefðbundinni aðferð kl 12:00 í Tindaöxl og alpagreinar einnig kl 12:00