Tímatökuhús og flötin stækkuð

Í vikunni var hjólað í að slá upp og steypa grunn fyrir tímatökuhúsið okkar fyrir skíðagönguna. Húsið er staðsett ofan við flötina á flottum stað og með gott útsýni yfir marksvæðið. Í morgun var svo farið í að reisa húsið en því miður tókst ekki að ljúka við þá vinnu þar sem einn bjálka vantaði í húsið. 

Helgi Reynir Árnason var svo mættur með tvö tæki til að breikka flötina fyrir neðan húsið og í suður. Dugði þar ekkert minna en beltavél og búkolla.

Það er okkur í Skíðafélagi Ólafsfjarðar ómetanlegt allt það sjálfboðastarf sem unnið er fyrir félagið. Ef við greinum aðeins það sem var gert í dag þá hefur þetta nánast allt verið unnið í sjálfboðavinnu. Smári ehf hjálpar okkur með tækjum til að grafa fyrir grunninum og koma efninu fyrir. Árni Helgason ehf. kom efninu uppeftir og Helgi Reynir svo mættur í dag til að gera flötina klára fyrir veturinn. 

Sjálfboðaliðar voru svo mættir til að reisa tímatökuhúsið og er þetta alltsaman ómetanlegt fyrir SÓ. Það má geta þess hér líka að ótrúleg vinna hefur verið unnin í haust á skíðasvæðinu og það allt í sjálfboðavinnu. Enn er þó eftir að fara í að rétta ljósastaura í Bárubraut og setja upp nýja kastara fyrir veturinn. Einnig er eftir að ganga frá öryggisvír í lyftunni og ganga frá nokkrum netum. Engu að síður eru líklega mörg ár síðan hefur verið unnið annað eins í skíðasvæðinu og er nú þriðja húsið að rísa sem bætir alla aðstöðu til muna fyrir okkur.

Myndir frá haustvinnu má finna með því að ýta á myndirnar neðst á forsíðunni og þá opnarst albúmið "Haustvinna" en því miður er eitthvað vesen á albúmum enn á nýju heimasíðunni okkar, en það stendur til bóta.